MUN FERÐAÞJÓNUSTAN BJARGA BYGGINGARIÐNAÐINUM?

  Greinin birtist í Vikudegi 26.02.09

Eitt allra brýnasta verkefni okkar er að efla atvinnulífið.  Þannig komum við best til móts við vanda heimilanna.  Við eigum ekki að una atvinnuleysi.

Miklar rannsóknir eiga sér nú stað á Þeystareykjasvæðinu, með það að markmiði að nýta tiltæka orku til iðnaðar s.s. álframleiðslu eða kísilmálmverksmiðju á Húsavík.  Þessi vinna þarf að sjálfsögðu að halda áfram af fullum krafti.  Við þurfum hins vegar að vera raunsæ.  Það er óvíst með uppbyggingu hans í nánustu framtíð og við megum engan tíma missa.

Alltof oft leiðist umræðan um atvinnuuppbyggingu út í þras um hvað eigi að gera og hvað ekki.  Einni atvinnugrein er teflt fram gegn annarri og umræðan leiðir ekki til annars en sundrungar.  Við höfum ekki tíma fyrir þess háttar karp.  Leita þarf leiða til að styðja uppbyggingu ólíkra greina.  Greina sem geta stutt hverja aðra, þó ólíkar séu og  höfða til mismunanandi hópa;  kvenna og karla, yngri og eldri, menntaðra og ófaglærðra, þéttbýlis- og dreifbýlisbúa.  Umfram allt þurfum við að ráðast í uppbyggingu sem getur hafist strax.

Ferðaþjónusta og mannvirkjagerð, eins ólíkar og þessar greinar virðast, uppfylla ágætlega þessi skilyrði.

Mannvirkjagerð er sú atvinnugrein sem einna verst hefur orðið fyrir barðinu á kreppunni.  Hundruð manna úr þeirri grein eru atvinnulaus í þessu kjördæmi, aðallega karlar í þéttbýli.  Brýnt er að koma þeim í vinnu aftur.  Hins vegar er tilgangslaust að byggja bara til að byggja.

Að ferðaþjónustu starfar hins vegar mjög fjölskrúðugur hópur.  Fyrirtækin eru stór og smá, víða um kjördæmið.  Allt frá veitinga- og gistirekstri til smámuna- og reðursafna. Vöxtur þessarar greinar getur verið einn lykillinn í því að koma mannvirkjagerð af stað að nýju:      

Ný flugstöð og styrking Akureyrar sem miðstöð alþjóðaflugs.

Uppbygging hótelrýma í Eyjafirði og nágrenni.

Vaðlaheiðargöng og bættar samgöngur á svæðinu.

Hafnarframkvæmdir.

Uppbygging á göngu- og stígakerfi í þéttbýli.

Áframhaldandi uppbygging íþrótta og útivistarmannvirkja.

Við þurfum að sameina krafta innan greinarinnar, með það að markmiði að stórefla vaxtarmöguleika hennar, ekki síst lengja ferðamannatímabilið.

Ég legg til að sveitafélög og fyrirtæki í ferðaþjónustu hefjist nú þegar handa við að markaðssetja Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur sem miðstöð vetrarmenningar.  Frá 15. janúar - 15. mars ár hvert verði haldin vetrarhátíð á þessu svæði.  Nú þegar hefur það upp á gríðarlega margt að bjóða og sóknarfærin til nýsköpunar eru óþrjótandi:

Raunhæft er að markaðssetja Eyjafjörð vetraríþróttaparadís fyrir Norður-Evrópu, með beinu flugi til Akureyrar.

Aukin ferðamennska innanlands skapar sóknarfæri.

Svæðið er þekkt fyrir matvælaframleiðslu.  Köllum saman okkar bestu kokka og framleiðendur og færum matarmenningu okkar í áhugaverðan búning fyrir ferðamenn.

Virkjun vatns- og jarðvarma hefur  skapað gríðarlega verkfræðiþekkingu, sem er kannski okkar vanmetnasta útflutningsafurð.  Nýtum  þessa þekkingu  í stórauknum mæli til nýsköpunar á sviði heilsutengdrar ferðaþjónustu.  Jarðböðin í Mývatnssveit eru gott dæmi um þetta.

Fjöldi bæja við heimskautsbaug hafa nú þegar stigið þetta skref og hafa stóran hlut sinna tekna af ferðaþjónustu tengdri vetrinum.  Þeir hafa gert með sér samtök sem nefnast Wintercities.  Kannski er myrkrið og kuldinn okkar helsta aðdráttarafl.  Skilgreinum sérstöðu okkar og byggjum á henni til að tryggja hér áframhaldandi velferð.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband